Val hvers tíma - til styttri eða lengri tíma

Val hvers tíma - til styttri eða lengri tíma

Komst að því í dag að þeir bræður Tómas og James Monaghan keyptu pizza stað kallaðan DomiNick's árið 1961. Þeir greiddu fyrir staðinn 500 dollara. Ekki há upphæð. Bræðurnir hófu af mikilli elju að vinna á staðnum en fljótlega kom í ljós að mismikinn áhugi var hjá þeim. Rétt um átta mánuðum eftir kaupin á veitingastaðnum fékk James þá hugmynd að selja sinn hluta í veitingastaðnum til að geta keypt sér Volswagen Bjöllu. Þeir urðu ásattir um viðskiptin og skildu sáttir; annar á bíl en hinn með veitingastað. Bjallan er fallegur bíll og einstaklega skemmtilega hannaður. Áferðafallegur og jafn glæsilegur eins og hann hefur í marga áratugi verið áreiðanlegur og notadrjúgur. Lengi bjó að góðri hönnun og ekki hægt að hnekkja því að Bjallan heillar marga enn. 

Bjallan hefur stað í mínu hjarta. Þetta er sú bíltegund sem ég man fyrst eftir að hafa setið (eða staðið) í með móður minni, hvort sem var í styttri ferðum eða löngum. Stóð þá oftar en ekki á milli framsætana klofvega á milli bungunnar á milli framsætanna, beltislaus, og eygði fram veg að áfangastað. Ég vissi sjaldnast hvert við værum að fara svona í festum tilfellum enda skipti það engu máli. Ferðalagið hjá mér var sú stund á meðan Bjöllunni var stýrt af öruggum höndum móður minnar. Hún vissi hvert hún var að fara. Það nægði mér. Á meðan lifði ég bara í núinu. Hún átti svo næstu árin nokkrar svona heillabjöllum. Þegar ég svo fékk bílpróf ók ég þeim nokkrum. Minnistæðast er þó þegar ég átti að skutlast til Keflavíkur að sækja eiganda bifreiðarinnar af gerð VW1300. Hafði verið með Bjölluna að láni á meðan. Á leið minni til Keflavíkur fannst mér tilvalið að fá mér ís í brauði við Suðurver. Kastaðist inn í ísbúð og stökk svo út í bíl með fallegan í hendi. Var ekkert að tvínóna við að festa belti og skellti í annan gír til að ná góðum fyrsta sprett til að spara aukaskiptingu og þurfa að leggja frá mér ísinn. Vildi ekki betur til en að lögreglan hafði fengið álíka hugmynd og var á leið inn á planið. Lá við árekstri en rétt slapp og snarhemlaði þvert fyrir verði laganna. Út úr lögreglubílnum kom maður sem gaf mér föðurlega áminningu um að klára ísinn og telja upp á 100 áður en ég myndi hefja bílferðina til Keflavíkur. Það væri ráðlegt. Ég tók þessu ráði og gaf mér umsaminn tíma, komst klakklaust til Keflavíkur og til baka. En aftur að þeim bræðrum.

Tómas þessi sem áður var getið og ásældist ekki fallega Bjöllu vann að sínum rekstri allt fram að aldamótum. Þá fannst honum nóg komið og seldi fyrirtækið. Fyrir það fékk hann um einn milljarð Bandaríkjadollara.

Fróðlegt hefði verið að fylgjast með þegar þeir bræður báru saman sinn hlut að loknu ævistarfi. Ætli James eigi ennþá Bjölluna?